Mamma borgar
Á kaupmanninn rétt við búðarborðið
svo brosfögur horfði Stína:
“Ég ætlaði bara að kaupa klæði
í kjól á brúðuna mína.”
“Og hvaða lit viltu, ljúfan,” sagði´ann
“í kjól á brúðuna þína?”
“Hvað, auðvitað rauðan, já ósköp rauðan”
með ákafa svaraði Stína.
Hann brosandi fór og klippti klæðið.
“Hvað kostar það?” spurði Stína.
“Einn koss” hann svaraði, “kostar klæðið
í kjól á brúðuna þína.”
Í búðinni glumdi við gleðihlátur,
er glaðlega svaraði Stína:
“Hún mamma kemur í bæinn bráðum
og borgar skuldina mína.”