Íslensk ástarljóð - Fyrir átta árum

Prenta texta

Ennþá brennur mér í muna
meir en nokkurn skyldi gruna,
að þú gafst mér undir fótinn.
Fyrir sunnan Fríkirkjuna
fórum við á stefnumótin.

En ég var bara, eins og gengur
ástfanginn og saklaus drengur.
Með söknuði ég seinna fann, að
við hefðum getað vakað lengur
og verið betri hvort við annað.

Svo var það fyrir átta árum,
að ég kvaddi þig með tárum,
daginn sem þú sigldir héðan.
Harmaljóð úr hafsins bárum
hjarta mínu fylgdi á meðan.

En hver veit nema ljósir lokkar,
lítill kjóll og stuttir sokkar
hittist fyrir hinumegin.
Þá getum við í gleði okkar
gengið suður Laufásveginn.