Regína Ósk er fædd 21.desember 1977. Hún hefur verið starfandi söngkona í mörg ár. Hún hefur lært í Söngskóla Reykjavíkur, FÍH, verið í einkatímum og hefur lokið eins árs námskeiði í Complete Vocal Technic. Hún hefur tekið þátt í ýmis konar verkefnum t.d lék hún í Litlu hryllingsbúðinni og Kysstu mig Kata sem voru sett upp í Borgarleikhúsinu 1998-2000. Einnig var hún í Hárinu sem sett var upp í Austurbæ 2004. Hún hefur starfað með ýmsum söngvurum og hljóðfæraleikurum. s.s Björgvini Halldórs, Stefáni Hilmars, Jóni Ólafs, Barða Jóhanns og Karli Olgeirssyni ásamt því að hafa verið  Frostrós sex sinnum og ferðast um landið með þeim. Hún hefur tekið þátt í ýmsum söngskemmtunum á Broadway, Háskólabíói, Salnum ofl. Árið 2009 setti hún einmitt upp söngkemmtun í Salnum, Kópavogi til heiðurs ” The Carpenters” sem gekk mjög vel og voru 11 tónleikar bæði í Salnum og á Akureyri.

Hún var ein af fjórum söngkonum sem að voru valdar í að syngja á heiðurstónleikum ABBA sem var sýnt sex sinnum í Eldborg 2012 og 2013. Árið 2013 var hún í Söngskemmtun í Hörpu sem bar heitið “Saga Eurovision” þar sem hún ásamt Friðriki Ómari og Selmu Björns rifjuðu upp sögu þessarar skemmtilegu keppni. Fóru þau um allt land og sungu þetta skemmtilega prógramm. Var hún í raddsveit heiðurstónleika Freddie Mercury sem að 40.000- íslendingar hafa séð og lengi mætti telja.

Hún hefur sungið inná tugi platna bæði sem bakrödd og sóló. Hún hefur gefið út fimm sólóplötur: “Regína Ósk” 2005, “Í djúpum dal” 2006 og “Ef væri ég…” 2007 ,Regína Ósk -um gleðileg jól 2010, eina með Eurobandinu “This is my life” 2008 og “Leiddu mína litlu hendi”  2014 þar sem hún söng barnasálma í slökunarútsetningum Friðriks Karlssonar. Stjórnaði upptökum og söng á “Jólin alls staðar” 2012 ásamt því að stjórna tónleikatúrnum um allt landið.
Hún hefur fjórum sinnum farið fyrir hönd Íslands í Eurovision, þrisvar sem bakrödd (2001,2003 og 2005) og 2008 með Eurobandinu. Hún og Friðrik Ómar hafa starfað mikið saman á s.l átta árum og eru enn að. Þau spila út um allar trissur með Eurobandinu bæði hér heima og í Evrópu. Þar spila þau og syngja Eurovision lög sem að allir vilja heyra. Einnig kemur Regína fram ein með allskonar efni….það sem hún hefur gefið út og svo einnig Carpenters, ABBA og Eurovision.
Regína er gift og á þrjú börn og hefur verið að kenna í Söngskólanum í 16 ár.