Karitas Harpa er fædd í Reykjavík 15. janúar, 1991. Fimm mánaða flutti hún til Bandaríkjana með foreldrum sínum sem fóru í nám þar sem faðir hennar lærði klassískan söng. Karitas bjó þar fyrstu 4 ár ævi sinnar og lærði íslensku og ensku samtímis. Ófáum stundum eyddi hún sofandi undir píanóinu á æfingum með pabba.  Móðir hennar segir að hún hafi byrjað að syngja “ þegar hún byrjaði að gefa frá sér hljóð”. Eins og svo margir sótti hún sitt fyrsta söngnámskeið í Söngskóla Maríu og Siggu um 8 ára aldurinn.

 

Karitas æfði fimleika með góðum árangri fram á unglingsár og þeim litla frítíma sem hún átti utan fimleika eyddi hún í herberginu sínu syngjandi og semjandi texta.

 

Söngur var áhugamál í grunn- og framhaldsskóla og tók hún þátt í ýmsum uppsetningum; leikritum og söngleikjum ásamt því að syngja í kór og taka þátt í söngvakeppnum. Eftir framhaldsskóla ferðaðist Karitas til Bandaríkjana og fór í áheyrnarprufur hjá Boston Conservatory for Musical Theatre þar sem henni bauðst að stunda BA nám.

 

 

Haustið 2016 ákvað hún að taka þátt í annarri seríu af The Voice Ísland þar sem hún stóð uppi sem sigurvegari þáttaseríunnar. Í framhaldi af The Voice gaf hún út ábreiðu af sigurlagi sínu. Hún vann og gaf út 3 lög með tónlistamanninum Daða Frey og gaf út sitt eigið frumsamið jólalag árið 2017.  Í lok 2017 komst hún með sönghópnum Fókus inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins þar sem þau kepptu til úrslita í byrjun árs 2018.

 

2017 var hún ein af tveimur stjórnendum í námskeiðinu “Söngur, leiklist og sjálfsöryggi” hjá Tónsmiðju Suðurlands.

 

2018 var mikið tónlistarár hjá Karitas, þá fékk hún vinnu hjá Rás 2 og sinnti hlutverki sem dagskrárgerðarkona m.a. í Popplandi. Sama ár gaf hún út tvö lög sem náðu ágætis árangri í útvarpi og hitaði, meðal annars, upp fyrir poppstirnið Jessie J í Laugardalshöll.

 

Í byrjun 2019 sá Karitas um podcast þátt um Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir RÚV og sat svo sem fastur álitsgjafi í þáttunum Alla leið í aðdraganda stóru keppninnar úti.

Karitas hefur því verið mjög virk undanfarin ár í að semja tónlist, syngja og koma fram. Hún hefur tekið þátt í ýmsum fjölbreyttum uppákomum með fjölbreyttu úrvali listamanna.

Við bjóðum Karítas hjartanlega velkomna til starfa á vorönn 2020